„Mér bauðst þetta starf og ég ákvað að láta slag standa. Mig langaði að snerta málefni viðskiptalífsins í meiri mæli en ég hef þegar gert og tel að þetta sé í raun kjörið tækifæri til þess,“ segir Katrín Amni.

Katrín er með BSc. gráðu í hagfræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands. Hún er auk þess með gráðu í lúxusstjórnun frá Domus Academy í Mílanó á Ítalíu. Hún segir að ákveðinn vendipunktur hafi verið í hennar lífi stuttu eftir að hún fluttist til Lúxemborgar eftir hrunið. „Upphaflega planið hjá mér var að fara þessa hefðbundnu leið eftir hagfræðina og vinna mig upp hjá bönkunum en svo kom hrunið og það setti auðvitað strik í reikninginn.“ segir Katrín.

Stuttu eftir flutningana kom hún auga á lista í virtu viðskiptatímariti yfir helstu hönnunar- og viðskiptaháskóla í heimi og ákvað hún að grípa gæsina. „Þetta nám sem ég fór í á Ítalíu er í raun það besta sem gat komið fyrir mig,“ segir Katrín og bætir við að lúxusstjórnun feli í raun í sér allt litróf sem snýr að rekstri og markaðsfræði. „Námið snerist í raun um að brúa bilið á milli skapandi hugsunar og viðskiptavits. Fólk sem starfar í skapandi störfum og er í fremstu röð í hátískugeiranum er afar frábrugðið almennu starfsfólki í viðskiptalífinu.“

Hún tekur sem dæmi að margir af frægustu hönnuðum í heimi vinni oft á tíðum á næturnar og fastur hefðbundinn vinnutími henti þeim ekki. Því sé mikilvægt að fólk í viðskiptadeildum þessara fyrirtækja leggi sig eftir því að skilja og umbera vinnubrögð þeirra svo dæmi sé tekið. „Í skólanum var okkur kennt að vinna með þessa eiginleika fólks, en auk þess lærðum við afar mikið um vörumerkjastýringu,“ bætir hún við. Katrín setti á laggirnar ráðgjafarfyrirtækið Kamni ehf. fyrir þremur árum síðan og hefur veitt hinum ýmsu fyrirtækjum ráðgjöf varðandi markaðs- og rekstrarmál. En áður starfaði hún sem markaðsstjóri Heilsuhússins. „Þegar ég starfaði hjá Heilsuhúsinu þá áttaði ég mig á því að mörg fyrirtæki þurfa fremur stuðning til skemmri tíma heldur en að ráða inn starfsmenn fyrir þau tilteknu verkefni. Þannig að það má segja að ég hafi komið auga á gat í markaðnum og í kjölfarið stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki.“

Katrín kveðst hafa mikinn áhuga á þeim störfum sem hún sinnir á hverjum tíma og segist verja miklum tíma í þau utan hefðbundins vinnutíma. Hún segist þó einnig hafa mikinn áhuga á útivist og hún nýti þann tíma sem gefst í hjólreiðar og aðrar útiíþróttir. Katrín á þar að auki tvö börn á aldrinum fjögurra og átta ára og ver hún miklum tíma í samverustundir með þeim.