„Við skoðum stöðuna hjá hverjum nemanda sem leitar til okkar og leiðbeinum honum eftir aðstæðum, og margir komast að því að langhentugast er að taka námslán,“ segir Björg Magnúsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þessa dagana eru háskólarnir að fara í fullan gang eftir sumarfrí og efst á baugi hjá mörgum er að sækja um námslán fyrir veturinn, enda er það eina leiðin fyrir marga til að komast fjárhagslega í gegnum námsárin.

„Við erum með góða tengingu við lánasjóðinn og aðstöðu á háskólasvæðinu ef fólk þarf á henni að halda til að finna út úr sínum málum,“ segir Björg. „Einnig reynum við að minna fólk á að fara sparlega með námslánin.“ Stúdentaráð hefur meðal annarra staðið fyrir því að háskólanemar fái frítt í strætó og fer ekki á milli mála að það nýtist mörgum vel, ásamt því sem það sparar þær miklu fjárhæðir sem felast í því að reka bíl. Fyrir þá sem komast ekki hjá því að eiga og reka bíl hefur Stúdentaráð nú samið um lækkun bensínkostnaðar.

„Stúdentaráð var að gera tímamótasamning við Atlantsolíu, sem felur í sér að allir stúdentar fá 3 kr. afslátt af bensíni hjá þeim,“ segir Björg. Hlutverk Stúdentaráðs er að standa vörð um hagsmuni stúdenta og Björg er í forsvari fyrir því starfi. „Leynt og ljóst erum við að semja fyrir stúdenta þannig að þeir geti átt fyrir salti í grautinn. Við erum að gera samninga við fyrirtæki með það að markmiði að skera niður kostnað á ýmiss konar hlutum fyrir háskólanema, því erfitt er að halda sér uppi á námslánunum einum,“ segir hún.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .