*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 10. ágúst 2019 13:28

Námslánaafsláttur ekki rétta leiðin

Hagfræðistofnun segir fyrirhugaðan afslátt af námslánum óhagkvæma leið til að fjölga starfsfólki í tilteknum greinum.

Ritstjórn
Sigurður Jóhannesson er forstöðumaður Hagfræðistofnunar, og höfundur umsagnarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðistofnun segir fyrirhugaðan afslátt af endurgreiðslu námslána í kennara- og hjúkrunarfræðinámi ekki réttu leiðina til að bregðast við skorti á starfsfólki. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um málið.

Bent er á að aðeins rúmur helmingur þeirra sem menntun hafi í viðkomandi greinum starfi innan þeirra. Vandamálið sé því ekki skortur á fólki með tilheyrandi menntun, og verði því ekki leystur með því að útskrifa fleiri. Slíkt sé sóun á kröftum bæði nemenda og kennara.

Einfaldari og hagkvæmari leið til að laða fagfólk í störfin sé að bæta þau kjör sem í boði séu. Sé ekki vilji til þess, liggi beinast við að draga úr menntunarkröfum, til dæmis með því að færa námið af háskólastigi á framhaldsskólastig.

Í umsögninni er það einnig gagnrýnt að ekkert kostnaðarmat á tillögunum liggi fyrir, og efasemdir um ýmsar fleiri breytingar viðraðar.

Annað sem lagt er til er að heimilt verði að veita afslátt af námslánum starfi lánþegi í svokallaðri brothættri byggð. Sömu rök eru sögð gilda um slíkar ívilnanir, einfaldast sé að bregðast við staðbundnum skorti á starfsfólki með bættum starfskjörum.

Þá er sú nýjung að 30% höfuðstóls láns falli niður, ljúki nemendur námi innan tiltekins tíma, sögð geta reynst erfið í framkvæmd. Fast verði sótt í undanþágur, og erfitt muni reynast að úrskurða um hvort ástæður námstafar teljist málefnalegar, auk þess sem þrýst verði á skólayfirvöld að „hleypa fólki í gegn“, til að námskostnaður viðkomandi aukist ekki stórlega.