Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fyrirspurn fyrir Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra, á Alþingi þess efnis hvort eðlilegt væri að fólk greiddi enn af námslánum sínum þegar það hefði náð 67 ára aldri og væri komið á eftirlaun. Illugi svaraði fyrirspurnininni í gær og sagði ekki standa til að fella niður námslánin. Fréttablaðið greinir frá málinu.

Illugi sagði að slík niðurfelling myndi kosta ríkið 700 til 800 milljónir króna. Á 17 árum myndi sá kostnaður nema 22 milljörðum króna. Sagði hann að auki að námið sem hefði verið fjármagnað af lánunum hefði aukið tekjuöflun lántaka sem hann nyti svo þegar hann væri kominn á eftirlaun. Því kæmi ekki til greina að fella niður lánin.