Í dag var haldin námstefnan Virkjum fjármagn kvenna.  Að námstefnunni stóðu Samtök iðnaðarins (SA), Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA), Iðnaðarráðuneytið og Viðskiptaráðuneytið.  Uppselt var á námstefnuna samkvæmt vef SA og mættu nálægt 400 manns á Hilton Reykjavík Nordica.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra setti námstefnuna sem var tvískipt.  Fyrri hluti hennar bar yfirskriftina ,,Konur og fjármálageirinn”.

Þá tók fyrst til máls Karin Forseke, sem er fyrsta kona heims til að stýra fjárfestingabanka. Hún fjallaði m.a. um ólíkt hugarfar kynjanna til fjármagns og valds og kom þar sérstaklega inn á mikilvægi sjálfstrausts kvenna.  Hún gerði einnig að umtalsefni ólíka nálgun kynjanna í fjárfestingum, en að hennar mati leggja konur meiri áherslu á að kynnast rekstri fyrirtækja, vörum þeirra og viðskiptavinum, í stað þess að einblína um of á tölur, ólíkt karlmönnum.

Næst tók Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital, til máls og fjallaði um mikilvægi þess að konur færu fyrir fé.  Hún fjallaði um stigvaxandi auð kvenna á heimsvísu og nauðsyn þess að virkja hann.  Einnig sagði hún frá erlendum rannsóknum á kauphegðun neytenda sem sýna m.a. að konur taka flestar ákvarðanir varðandi innkaup heimila.

Eftir erindi Höllu tóku við umræður á pallborði.  Þar sátu og svöruðu fyrirspurnum Karin Forseke, Jón Scheving Thorsteinsson stjórnarmaður Arev Securities, Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital og Bjarni Ármannsson fjárfestir.

Seinni hluti námstefnunnar bar yfirskriftina ,,Konur og rekstur fyrirtækja”.

Fyrst tók til máls Guðrún Björk Bjarnadóttir lögmaður frá Samtökum iðnaðarins.  Hún flutti erindi um stjórnarmyndanir í íslenskum fyrirtækjum.  Þar fjallaði hún m.a. um þann möguleika að minnihluti hluthafa geti knúið fram annað kosningakerfi en meirihlutakosningu, sem er séríslenskt fyrirbrigði og þekkist ekki í öðrum löndum.

Næst tók til máls Margrét Guðmundsdóttir forstjóri Icepharma og fjallaði um kaup sín og annarra eiganda á lyfjafyrirtækinu Icepharma. Þar rakti hún m.a. ástæður kaupanna en hún hafði lengi vel verið afhuga þeirri hugmynd að eiga sjálf fyrirtæki.

Þar næst tók til máls Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis.  Fyrirlestur hennar bar heitið ,,Business is beuty!” en þar fjallaði hún m.a. um hvernig áhugi hennar á viðskiptum hafi strax hafist á barnsaldri inn á heimili hennar.

Í lok námstefnunnar tóku við seinni umræður á pallborði.  Þar sátu fyrir svörum Margrét Kristmannsdóttir formaður FKA, Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Landic Property og Elín Jónsdóttir framkvæmdastjóri Arev Securities.

Fundarstjóri var Þóranna Jónsdóttir frá Auði Capital.