Árið 2010 stofnaði Peter H. Diamandis og Eric C. Anderson fyrirtækið Arkyd Astronautics, sem síðar fékk nafnið Planetary Resources. Markmið félagsins var að þróa tækni sem gæti gert námugröft í geimnum að raunverulegum möguleika. Þó að fyrirtækinu hafi ekki enn tekist að hefja námugröft á smástirnum, hefur fyrirtækið stækkað ört, ásamt því sem nýir fjárfestar hafa bæst í hópinn.

Einn af þessum nýju fjárfestum, er hertogadæmið Lúxemborg, en um er að ræða 25 milljón evra fjárfestingu, sem skiptist í tvo hluta. Markmið fjárfestingarinnar er að styðja við vöxt fyrirtækisins, sem stefnir að því að skjóta fyrstu flaugunum upp árið 2020.

Lúxemborgíska Þingið hefur einnig unnið að því að skapa sérstakan lagaramma, sem á að tryggja það að sjálfstæð fyrirtæki sem starfa við námugröft í geimnum, njóti engrar óvissu þegar kemur að eignarrétti. Núverandi ríkisstjórn landsins miðar einnig að því að starfa með öðrum þjóðum, til þess að tryggja gagnkvæman ávinning. Ríkisstjórnin hefur sett upp sérstaka vefsíðu sem á að halda fólki upplýstu um framvindu mála.

Fjárfestingin hefur ekki vakið lukku hjá öllum á þinginu, en sumir telja að það sé verið að kasta skattpeningum út um gluggann. Ríkisstjórnin telur þetta verkefni aftur á móti geta leitt til töluverðs ávinnings í framtíðinni, sérstaklega ef verkefnið heppnast vel. Að þeirra mati er verið að fjárfesta í mannauð og nýjum hugmyndum, sem ættu að geta blandast vel við þá miklu þekkingu sem hefur skapast á sviði fjármála innan þjóðarinnar.

Skattgreiðendur virðast þó fremur rólegir, enda búa þeir við ein bestu lífskjör í heimi í dag. Ef litið er til vergrar landsframleiðslu á mann, þá er hún um 100 þúsund dali. Alls búa um 543 þúsund íbúar í landinu, en landið er á milli Frakklands, Belgíu og Þýskalands.

Hér má sjá kynningarmyndband frá fyrirtækinu. Alls starfa 60 manns þar í dag: