Námuvinnslurisinn BHP Billington mun segja upp 3.400 manns í námuvinnslu í Ástralíu vegna efnahagskreppunnar og samdráttar í hráefnaeftirspurn. Að sögn vefmiðilsins The Australian er þetta hluti af enn meiri niðurskurði á störfum fyrirtækisins á heimsvísu.   Fyrirtækið greindi frá því á miðvikudag að það hygðist fækka í 101.000 manna starfsliði sínu um allan heim um 6%. Meira en helmingur þeirra 6.000 starfsmanna sem sagt yrði upp væri í Ástralíu.   Vestur ástralska þorpið Ravensthorpe verður harðast fyrir barðinu á þessum samdrætti. Lokun á nikkelnámu í nágrenni bæjarins þýðir að 1.450 störf tapast, enskráðir íbúar bæjarins eru hinsvegar aðeins 438 talsins.   Þá tapast 300 störf í Mount Keith nikkel ríkisnámunni og 350 störf tapast í Yabula nikkel hreinsunarstöðinni í Townsville í Queensland. Sagt verður upp um 1.100 starfsmönnum í kolanámu BHP í Queensland og öðrum 200 í hinni veigamiklu Olympic Dam námu í Suður Ástralíu þar sem unnið er gull, kopar og úraníum. Óttast menn nú að fyrirhuguð 15 milljarða dollara efling vinnslunnar á svæðinu verði slegin af í bili.