Ástralir eru nú farnir að finna vel fyrir efnahagskreppunni að því er fram kemur á vef WorldNews. Hafa m.a. skorin niður 570 störf í námuiðnaði í þrem ríkjum Ástralíu.

Mest eru áhrifin af samdrætti hjá Rio Tinto sem hefur lagt á hilluna áform um 900 milljóna dollara uppbyggingu. Þar er m.a. um að ræða 229 milljóna dollara verkefni í eflingu á starfsemi koparnámu í New South Wales. Þá hafa fyrirtækin Xstrata og OZ Minerals lokað Zinknámum í Queensland og í Vestur-Ástralíu. Þó þarna sé um tiltölulega fáa námuverkamenn að ræða sem missa vinnuna, þá er þetta eigi að síður gjörbreyting á högum námufyrirtækja í Ástralíu. Fram undir þetta hafa þau nefnilega helst verið í stórvandræðum með að fá aukinn mannskap vegna þenslunnar í Asíu á undanförnum árum.