Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,52% í dag og stendur í 1.746,07 stigum en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu ríflega 1,2 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,28% og stendur því í 1.360,49 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 5,3 milljörðum króna. Það virðist því vera skjálfti á mörkuðum í aðdraganda þess að ákvörðun um uppsögn kjarasamninga þarf að taka á morgun.

Aðeins eitt félag hækkaði í dag og aðeins eitt stóð í stað en önnur bréf sem voru í einhverjum viðskiptum lækkuðu. Bréf Tryggingamiðstöðvarinnar hækkuðu um 0,86% en í afar óverulegum viðskiptum. Þá stóðu bréf Fjarskipta í stað í tæplega 48 milljón króna viðskiptum og þau fást því áfram á genginu 64,00.

Mest lækkuðu bréf Símans í dag eða um 3,37% í viðskiptum upp á rúmar 203 milljónir króna og var gengi þeirra 4,02 í lok dags. Þá lækkuðu bréf Icelandair næst mest eða um 2,35% í ríflega 130 milljón króna viðskiptum.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 1,38% í viðskiptum upp á tæplega 1,2 milljarða. Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,24% í 3,4 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,18 % í 0,3 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,37% í 3,1 milljarða viðskiptum.