Iceland Express (IE) fór úr því að tapa rúmum milljarði króna á árinu 2008 í það að græða um 590 milljónir króna á árinu 2009.

Viðsnúningurinn, um 1,6 milljarðar króna, útskýrist að langmestu leyti á því að kröfur á tengda aðila jukust um tæplega 1,2 milljarða króna á milli áranna. Við það jókst virði eigna IE um nánast sömu upphæð.

Þessar eignartilfærslur gera það að verkum að eigið fé IE fór úr því að vera neikvætt um 627 milljónir króna í það að vera jákvætt um 414 milljónir króna.

Lítil hækkun á skuldum félagsins og hófleg hækkun á rekstrartekjum, ef kröfur á tengda aðila eru dregnar frá, bendir til þess að umsvif rekstrar IE hafi aukist lítillega frá árinu 2008. Það ár flaug IE á alls 14 áfangastaði. Ári síðar hafði þeim fjölgað í 18. Á sama tíma tæplega þrefölduðust eignir félagsins.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .