Óvissunni um Nasa er nú lokið, en nýtt félag hefur gert leigusamning um rekstur hússins og er Ásgeir Kolbeinsson í forsvari fyrir nýja eigendur. Einn ástsælasti tónleikastaður landsins mun því opna aftur í haust. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Skipulagsbreytingar á húsinu verða margvíslegar og notkunarmöguleikar þess verða hámarkaðir á sama tíma og mikil virðing verður sýnd þessu einstaka húsnæði sem svo sannarlega margir hafa skoðun á. Nýir eigendur eru spenntir fyrir því að kynna þessar breytingar fyrir landsmönnum en hugsanlegt er að einhverjir einstakir viðburðir verði á Nasa í maí áður en húsið lokar endanlega um mánaðarmótin maí/júní og framkvæmdir hefjast þá strax í kjölfarið.