Geimferðastofnun NASA aðstoðar við rannsókn á óviðráðanlegri hraðaaukningu í akstri Toyota og annarra bíltegunda. Samkvæmt frétt The Detroit News, verða gerðar tvær rannsóknir á atvikum þegar bensíngjöf bíla festist í botni. Báðar eru gerðar af frumkvæði umferðaráðuneytis Bandaríkjanna. Munu þær snúast um hvort rafkerfi í bílum geti valdið óviðráðanlegri hraðaaukningu, eða hvort þar er um að ræða rafsegulfræðilegar ástæður.

Önnur rannsóknin verður framkvæmd af National Academy of Sciences og hin fer fram með aðstoð frá NASA. Ekki verður eingöngu horft til atvika er varðar Toyota bíla, því engin tegund verður undanskilin í rannsóknunum.

Toyota innkallaði 8,5 milljónir bíla um allan heim vegna meints galla í bensíngjöf. Alríkis- vegaöryggisnefndin í Bandaríkjunum (The National Highway Traffic Safety Administration) hefur tekið við meira en 3.000 kvörtunum vegna slíkra tilvika sem leitt hafa til að minnsta kosti 51 dauðsfalls sem rakin eru til Toyota. Japanskir bílaframleiðendur segjast ekki hafa trú á að rafkerfi bílanna eða rafsegulfræðilegar ástæður hafi orsakað þessi slys, heldur einfaldlega hindrun eða galli í bensínpedala.