Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur samið við Boeing og SpaceX um leiguferðir í alþjóðlegu geimstöðina. „Ríkisstjórn Obama lagði línurnar með það í upphafi að mikilfenglegasta þjóð í heiminum ætti ekki að þurfa að reiða sig á aðrar þjóðir til að komast út í geiminn," segir Charles Bolden, framkvæmdastjóri NASA í samtali við fréttavefinn Science Recorder.

Samningar Nasa við Boeing og SpaceX miða að því að flytja bandaríska geimfara á braut um jörðu til að byrja með en á seinni stigum er miðað að því að félögin geti komið þeim til og frá alþjóðlegu geimstöðinni, ISS. „Við það að fela einkaaðilum að sjá um að ferja geimfara á lágum sporbaug fær NASA tækifæri til að einbeita sér að enn metnaðarfyllra verkefni - að koma manneskjum til Mars," segir Bolden.