Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hyggst senda „fljúgandi disk“ út í geim um kvöldmatarleitið á Íslenskum tíma. Meginhlutverk disksins er þó ekki að fljúga heldur er ætlunin að kanna hvort hann megi nota til að draga úr hraða annarra geimfara áður en þau lenda á öðrum plánetum, eins og til dæmis Mars.

Diskurinn mun fljóta upp í 119.000 feta hæð þar sem honum verður sleppt, en hann kemur svo til með að fljúga sjálfur upp í 180.000 fet. Þegar þangað er komið mun hann opna fallhlíf og falla til jarðar. Vísindamenn NASA munu meðal annars mæla hversu mikið disknum tekst að hægja á fallinu til að komast að því hvort hægt sé að nota hann í ofangreindum tilgangi.

Diskurinn verður sendur út í geim frá Hawaii klukkan 18.30 að íslenskum tíma og verður það sýnt í beinni útsendingu.