*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 19. nóvember 2019 12:04

Nasdaq birtir hluthafalista á ný

Nasdaq verðbréfamiðstöð mun hefja á ný birtingu á listum yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga.

Ritstjórn
Úr höfuðstöðvum Kauphallar Íslands á Laugarvegi.
Haraldur Guðjónsson

„Góðar fréttir! Nasdaq verðbréfamiðstöð mun hefja birtingu/dreifingu á listum yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga á ný, eftir jákvæða umsögn Persónuverndar. Verið er að útfæra málið. Stay tuned...,“

Þannig hljóðar tíst frá Nasdaq Icelands í morgun. Þá hefur einnig komið fram að innan skamms muni fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra byrja að birta upplýsingar um raunverulega eigendur félaga hér á landi.

„Við birtum þetta á sínum tíma mánaðarlega og sendum áskrifendum vikulegan póst með stöðunni. Í júlí í fyrra, eftir að ný persónuverndarlög tóku gildi, taldi Nasdaq að það væri álitamál hvort þessi framkvæmd stæðist lögin og leitaði því álits Persónuverndar,“ segir Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.

Nýverið fékkst álit Persónuverndar en það var þess efnis að birtingin gæti talist heimil í þágu almannahagsmuna. Undanfarið hefur Nasdaq unnið að því að fá umboð frá félögum á markaði til að birta upplýsingarnar og liggja þau nú fyrir í flestum tilvikum.

„Útfærslan á þessu er í vinnsluferli en við stefnum að því að birting verði mánaðarleg og eigi sér stað fyrsta virka dag hvers mánaðar. Stefnt er að því að birting hefjist á ný í næsta mánuði,“ segir Magnús.