Bandaríska kauphöllin NASDAQ hefur gert 2,7 milljarða punda (360 milljarða krónu) yfirtökuboð í kauphöllina í London (LSE), segir í frétt Dow Jones.

Með samrunanum yrði til stærsti hlutabréfamarkaður heims miðað við skráð fyrirtæki, en þau væru fleiri en 6.400 með 6,3 billjón punda (837,5 billjón krónu) markaðsvirði.

NASDAQ hefur einnig keypt 7,1 milljón hluti í LSE og á nú 28,75% í kauphöllinni.

NASDAQ segir að LSE verði starfrækt áfram eins og hún er í dag, en áhyggjur hafa verið uppi um að bandarískar reglugerðir muni hafa áhrif á reksturinn.