*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 30. maí 2018 11:49

Nasdaq hafnar ásökunum

Grunur liggur á að félagið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mun Samkeppniseftirlitð hefja formlega rannsókn.

Ritstjórn
Samkeppniseftirlitið
Haraldur Guðjónsson

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að Samkeppniseftirlitið hyggðist hefja formlega rannsókn á gjaldtöku Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. Mun vera rannsakað hvort félagið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Viðskiptablaðið fjallaði einnig um málið.

Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið þar sem félagið hafnar öllum ásökunum um að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína.

Einnig kemur fram að mjög skýr og rík lagaumgjörð sé um starfsemi verðbréfamiðstöðva. Staðlar og kröfur sem eftirlitsaðilar í Evrópu hafa sett fram gera ráð fyrir að samkeppni fari fram með tengingum á milli verðbréfamiðstöðva. Fylgir Nasdaq verðbréfamiðstöð þeim kröfum í einu og öllu. 

Einungis er hægt að flytja verðbréf á milli verðbréfamiðstöðva að ósk útgefenda verðbréfa og að gættum hagsmunum eigenda þeirra. Engin ósk um slíkt hefur borist. 

Það sem Verðbréfamiðstöð Íslands kallar flutning á verðbréfum á milli verðbréfamiðstöðva samkvæmt frétt sem birtist í morgun, er í reynd ekki flutningur, heldur tenging við Nasdaq verðbréfamiðstöð. Tengingar á milli verðbréfamiðstöðva í Evrópu eru algengar og er ávallt tekið gjald fyrir þær enda óhjákvæmilegur kostnaður sem felst í því að þjónusta slíkar tengingar. Allar skyldur Nasdaq verðbréfamiðstöðvar er lúta að útgáfu og utanumhaldi verðbréfanna haldast óbreyttar, óháð tengingu á milli verðbréfamiðstöðva. Verðskrá Nasdaq verðbréfamiðstöðvar byggir á sömu nálgun og gjaldskrár verðbréfamiðstöðva í Evrópu.

Verðbréfamiðstöð Íslands hefur ekki óskað eftir tengingu við Nasdaq verðbréfamiðstöð. 

Óski Verðbréfamiðstöð Íslands eftir því að tengjast Nasdaq verðbréfamiðstöð mun hún að sjálfsögðu verða við því á grundvelli þeirra krafna sem gerðar eru um slíkar tengingar lögum samkvæmt.

Nasdaq verðbréfamiðstöð á eftir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við Samkeppniseftirlitið og verður það gert á næstu dögum er fram kemur í tilkynningunni.