Nasdaq Iceland (Kauphöllin) hefur samþykkt umsókn Eikar fasteignafélags hf. um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu .

Þann 8. apríl sl. samþykkti Kauphöllin umsókn Eikar að uppfylltum skilyrðum um dreifingu hlutafjár. Þeim skilyrðum hefur nú verið fullnægt. Fyrsti viðskiptadagur með hluti Eikar verður 29. apríl næstkomandi.

Hlutafjárútboði í Eik lauk í gær þar sem um 2.100 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 8,3 milljarða króna. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur 3,3 milljörðum króna á genginu 6,80 krónur á hlut. Markaðsvirði hlutafjár Eikar fasteignafélags er 23,6 milljarðar.