Nasdaq vísitalan lækkaði í dag um 0,1%. Lengi leit þó út fyrir að lækkunin yrði meiri. Dow Jones hækkaði aftur á móti um 0,33% og Standard & Poor's hækkaði um 0,12%.

Það voru fyrst og fremst fjármálafyrirtæki sem lækkuðu í dag. WSJ segir mikla óvissu ríkja á fjármálamarkaði um þessar mundir og leggur áherslu á slæmt gengi dollars gagnvar evrunni.

Lehman Brothers bankinn tilkynnti afkomu í dag sem er yfir væntinum. Þrátt fyrir það hækkuðu bréfin ekki í fyrirtækinu. Bloomberg.com greinir frá því að samvinna nokkura seðlabanka til að auka lausafé á markaði muni að öllum líkindum mistakast og hefur það eftir greiningadeildum banka. Því sé ekki mikil eftirvænting á fjármálamarkaði eins og er þrátt fyrir jákvæða afkomu Lehman Brothers. Það var síðan undir lok dags sem fréttir bárust af því að lausafé Freddie Mac fjárfestingabankans væri nægilegt næstu misseri. Við þær fréttir fóru Dow Jones og S&P vísitölurnar að hækka aftur.

Líftæknifyrirtækið Biogen tók dýfu í dag og lækkaði um 24% eftir að tilkynnt var að fyrirtækinu hefði ekki tekist að finna kaupanda en fyrirtækið hefur verið til sölu. Biogen er skráð á Nasdaq og hafði töluverð áhrif á visitölu Nasdaq í dag.

Neysluvísitölur voru þó jákvæðar í dag en WSJ segir að neysla hafi aukist um 1,2% í nóvember og er það meira en búist hafi verið við. Ef ökutæki eru tekin út úr vísitölunni hefur neysla aukist um 1,8%. Það þykir jákvætt en fyrstu einkenni kreppu er einmitt að fólk dregur úr neyslu á almennum vörum.