Nasdaq á í viðræðum við stærstu hluthafa OMX en félagið reynir nú að sannfæra þá um að samþykkja greiðslu fyrir hlut þess sem yrði aðeins í nýjum hlutabréfum í Nasdaq.

Bandaríska kauphöllin keppir nú að því eftir fremsta megni að koma fram með álitlegra yfirtökutilboð í OMX heldur en keppinautur þess, kauphöllin í Dubai. Frá þessu er greint í Financial Times, en gangi þessar umleitanir Nasdaq eftir myndi það gera félaginu kleift að bjóða vogunarsjóðum - sem eru stórir hluthafar í OMX - mun hærra hlutfall reiðufjár og þannig gera tilboð Nasdaq vænlegra í augum þeirra.

Það hefur áður komið fram að ýmsir vogunarsjóðir hafi keypt um 25% hlut í OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum, en önnur og skammsýnni sjónarmið ráða iðulega för hjá slíkum sjóðum sem horfa fyrst og fremst til þess að fá sem mest reiðufé í hendurnar fyrir hlut sinn. Af þeim sökum er ljóst að þeir kjósa fremur fjögurra milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboð kauphallarinnar í Dubai, - sem verður að öllum hluta fjármagnað með reiðufé - í stað 3,7 milljarða dala tilboðs Nasdaq sem verður aðeins að hluta til greitt með peningum.

Í samtali við Financial Times í gærmorgun sagði Bob Greifeld, framkvæmdastjóri Nasdaq, að Investor AB, eignarhaldsfélag Wallenberg fjölskyldunnar, og Nordea bankinn, hefðu samþykkt að fá einvörðungu borgað í hlutabréfum fyrir hlut sinn í OMX, og að aðrir hluthafar væru jafnframt að hugleiða slíkt hið sama. Á mánudaginn tilkynnti Nasdaq að félagið hygðist selja 31% hlut sinn í kauphöllinni í London (LSE) og telja sérfræðingar líklegt að sú sala muni leiða til þess að gengi hlutabréfa Nasdaq hækki á næstunni og þar með sömuleiðis auka verðmæti tilboðsins sem það hefur gert í OMX.

Greifeld flaug til Svíþjóðar í gær þar sem hann fundaði meðal annars með þremur stærstu hluthöfum OMX - Investor AB (10,7%), sænskum stjórnvöldum (6,6%) og Nordea (5,5%) - auk stórra fagfjárfesta. Hann sagðist telja að það væri sameiginlegur skilningur á meðal stjórnenda Nasdaq og hluthafa OMX um að tilboð bandarísku kauphallarinnar væri hagstæðara fyrir OMX til lengri tíma litið. Hins vegar viðurkenndi Greifeld að Nasdaq þyrfti sennilega að koma fram með betra tilboð ef félagið ætlaði að sigra kauphöllina í Dubai í yfirtökustríði þeirra um OMX.