Nasdaq gæti selt 31% hlut sinn í kauphöllinni í London (LSE) til kauphallarinnar í Dubai og í kjölfarið myndu félögin í sameiningu gera yfirtökutilboð í norrænu kauphallarsamstæðuna OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum, að því er breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá í gær.

Bandaríska kauphallarfyrirtækið Nasdaq, sem hefur mikinn hug á því að útvíkka starfsemi sína á erlendum mörkuðum, hefur átt í yfirtökustríði við kauphöllina í Dubai undanfarnar vikur, eftir að kauphöllin í Miðausturlöndum gerði hærra tilboð í OMX heldur en Nasdaq hafði áður lagt fram í maímánuði. Þann 20. ágúst síðastliðinn tilkynnti Nasdaq að félagið hygðist selja hlut sinn í LSE, en hann er metinn á um 1,6 milljarða Bandaríkjadala, til að styrkja stöðu sína gagnvart kauphöllinni í Dubai um yfirráð í OMX. Nasdaq sagðist hins vegar þá ekki hafa í huga að ætla að selja allan hlutinn til eins kaupanda.

Tilboð kauphallarinnar í Dubai er metið á um 4 milljarða dala, sem er um 300 milljónum dala hærra heldur en tilboð Nasdaq í OMX. Í frétt Daily Telegraph kemur fram að Bob Greifeld, framkvæmdastjóri Nasdaq, hafi áhyggjur af því að félagið verði undir í baráttunni um OMX auk þess sem hann vilji gæta þess að gera ekki of hátt tilboð. Forsvarsmenn Nasdaq og kauphallarinnar í Dubai vildu ekki tjá sig um málið við erlenda fjölmiðla í gær.