Kauphallarsamstæðan Nasdaq OMX á Norðurlöndunum er hætt að nota GICS-flokkunarkerfið og ætlar að innleiða ICB-atvinnugreinaflokkunina (Industry Classification Benchmark) á heimsvísu, frá og með 1. febrúar á næst ári. Þetta er sama flokkun og kauphallirnar Nasdaq OMX og NYSE Euronext nota í Bandaríkjunum.

Innleiðingin auðveldar samanburð á milli félaga en áður.

Í tilkynningu er haft eftir Jenny Rosberg hjá Nasdaq OMX, að breytingin geri fyrirtækjum sem skráð eru hjá kauphallarsamstæðunni betur kleift að bera sig saman við fyrirtæki í skyldum rekstri á alþjóðlegum grunni. Þetta á við um 75.000 verðbréf miðað við 40.000 áður.

Þá segir hún breytinguna gera samstæðunni mögulegt að smíða samræmdar og yfirgripsmiklar alþjóðlegar vísitölur, sem auðvelda bæði almennum fjárfestum og fagfjárfestum með fljótlegum og hlutlausum hætti að leggja mælikvarða á markaðinn og fjárfesta í honum.