Fremur jákvæð niðurstaða úr álagsprófi á bandaríska banka skilaði því að fjárfestar litu upp úr svartnættinu síðustu vikurnar. Í kjölfarið hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur hressilega. Þótt hækkunin hafi verið undir 2% á línuna steig Nasdaq-vísitalan í hæstu hæðir, rauf 3.000 stiga múrinn og snerti 3.040 stig þegar best lét yfir viðskiptadaginn. Vísitalan endaði handan 3.000 stiga múrsins í dagslok og hefur hún ekki verið í slíkum hæðum síðan hún var á hraðri niðurleið um það leyti sem netbólan sprakk með látum í nóvember árið 2000. Þá hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan ekki verið hærri síðan í desember árið 2007.

Bloomberg-fréttaveitan segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem bandaríski seðlabankinn gaf út síðdegis þá ráði 15 af 19 umsvifamestu bönkum landsins yfir nægu eiginfé til að standa af sér áföll - og það án þess hætta arðgreiðslum og endurkaupum á eigin hlutabréfum.

Af einstökum hlutabréfavísitölum þá hækkaði Dow Jones-hlutabréfavísitalan um 1,68%, S&P 500-vísitalan um 1,81% og að lokum Nasdaq-vísitalan um 1,88%.

NYSE
NYSE