Bandaríska Nasdaq-hlutabréfavísitalan rauf 4.000 stiga múrinn vestanhafs í gær. Hún hafði þá ekki verið hærri síðan i september árið 2000 eða í rúm 13 ár þegar netbólan var með mesta móti. Vísitalan hækkaði um 0,6% yfir daginn og endaði í 4.017,75 stigum.

AP-fréttastofan segir hækkunina á markaði skýrast af almennt jákvæðum fréttum úr bandarísku efnahagslífi, ekki síst af fasteignamarkaði en S/P/Case-Shiller-fasteignavísitalan sem mælir verðþróun á markaðnum hefur hækkað nokkuð á milli ára. Þá voru ný byggingaleyfi 6,2% fleiri í október í ár en í fyrra og hafa þau ekki verið fleiri síðan kreppan skall á af þunga fyrir fimm árum.