Eignarhaldsfélagið Naskur, sem er móðurfélag Pizza Hut á Íslandi, var í fyrra rekið með um þriggja milljóna króna tapi, samanborið við tap upp á 2,5 milljónir króna árið áður. Naskur er í eigu hjónanna Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, framkvæmdastjóra Pizza Hut á Íslandi og Finnlandi og nýkjörins formanns FKA, og Péturs Jónssonar.

Tekjur félagsins námu í fyrra um 15 milljónum króna og jukust um tæplega helming á milli ára. Rekstrarkostnaður nam hins vegar um 13 milljónum króna og hækkaði um 7,8 milljónir króna á milli ára.

Stærsti hluti rekstrarkostnaðarins voru laun og dagpeningar sem námu um 12 milljónum króna. Eigið fé félagsins var í lok árs neikvætt um 51,3 milljónir króna og á sama tíma námu skuldir þess rúmlega 115 milljónum króna. Handbært fé í lok árs nam aðeins 30 þúsund krónum.