Hópur fjárfestinga- og vogunarsjóða, undir forystu Corsair Capital, lítt þekkts fjárfestingafyrirtækis, hyggst fjárfesta fyrir 7-8 milljarða Bandaríkjadala í National City, tíunda stærsta banka Bandaríkjanna.

Samkomulagið verður líklega kynnt síðar í dag, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Endurfjármögnun NatCity kemur í kjölfar tilrauna til að selja bankann, en hann hefur lengi verið talinn líklegt yfirtökuskotmark.

NatCity, líkt og margir aðrir fasteignalánaveitendur, hefur orðið illa fyrir barðinu á undirmálslánakrísunni. Bankinn tapaði 333 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 78% á einu ári.

Gangi samkomulagið við fjárfestingasjóðina eftir, verður um að ræða þriðju meiriháttar fjármagnsinnspýtinguna í stóran bandarískan banka það sem af er þessum mánuði. Fyrr í mánuðinum tilkynntu Washington Mutual og Wachovia um sambærilegar endurfjármögnunaraðgerðir, sem hljóðuðu upp á samtals 14 milljarða dala.

Líkt og í tilfelli Wachovia og Washington Mutual, býður NatCity fjárfestingasjóðunum að kaupa hlutabréf í bankanum nokkuð undir markaðsvirði. Samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal er gert ráð fyrir að fjárfestarnir greiði um 5 dali á hlut, en gengi bréfanna stóð í 8,33 dölum á hlut við lok viðskipta á föstudag.