Breski húsnæðislánaveitandinn Nationwide er vel á veg kominn að yfirtaka Derbyshire Building Society.

Nationwide er stærsti íbúðalánasjóður Bretlands. Félagið á einnig í viðræðum um yfirtöku á öðrum minni keppinauti sínum, en framkvæmdastjóri félagsins vill helst tilkynna um báðar yfirtökurnar samtímis.

Gangi yfirtökurnar í gegn munu þær styrkja stöðu Nationwide sem stærsti íbúðalánasjóður Bretlands. Derbyshire rekur 50 útibú, á eignir að andvirði 7 milljarða punda og hefur 500.000 meðlimi. Talið er að viðræður um yfirtöku hafi hafist eftir að framkvæmdastjóri Derbyshire, Graham Picken, leitaði eftir því að koma eignum félagsins til sterkari aðila vegna versnandi stöðu á lánamörkuðum.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph, en þar kemur einnig fram að talið er að fjöldi annarra samrunaviðræðna eigi sér nú stað meðal breskra íbúðalánasjóða.