Atlantshafsbandalagið hefur fordæmt þá ákvörðun Rússa að stækka við kjarnorkuvopnaflota sinn og segir þessa aðgerð vera hættulega og óréttlætanlega.

Rússar hafa ákveðið að bæta við sig 40 langdrægum kjarnorkuflugskeytum í ljósi þess að Bandaríkin juku við hernaðarstyrk sinn innan NATO ríkjanna í Austur-Evrópu, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að ráðagerðir Vladimir Putin um að bæta við kjarnorkuvopnaflotann sinn sé í takt við ákveðna þróun sem hefur orðið á hegðun Rússlands yfir ákveðið tímabil.

„Þessi ögrun Rússlands með kjarnorkuvopnum ógnar stöðugleika og er hættuleg,“ var haft eftir Stoltenberg á BBC.

„Við erum að skoða þessi mál og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við erum að auka viðbúnað meðal hersveita okkar.“