"Meginniðurstaða þessarar könnunar og samanburðar við fyrri kannanir er einfaldlega að hinn dæmigerði erlendi sumarferðamaður hefur lítið verið að breytast á þessum átta árum sem liðin eru frá því við hófum þessar kannanir. Hann er vel menntaður, vel stæður og hefur fyrst og fremst áhuga á náttúru landsins," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri um niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálaráðs á ferðavenjum erlendra gesta sem sóttu Ísland heim í sumar.

Sumarkönnun Ferðamálaráðs 2004 fór fram í Leifsstöð og á Seyðisfirði frá júníbyrjun til ágústloka. Á þessu tímabili fóru um 175 þúsund erlendir gestir úr landi og var spurningalistum dreift af handahófi til 3.139 gesta og bárust 2.507 nothæfir svarlistar til baka. Meðalaldur svarenda var um 44 ár, sem er tæplega þremur árum hærri meðalaldur en í könnuninni 2002. Jafnræði var milli kynja og ríflega helmingur svarenda sagðist vera með tekjur yfir meðallagi eða háar tekjur, miðað við meðaltekjur í heimalandi.

80% vilja koma aftur

Eins og í fyrri könnunum nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. Næstflestir nefna vini/ættinga og síðan þætti eins og ferðabæklinga, blaðagreinar og fyrri heimsóknir en 20% gestanna höfðu komið áður og 80% vilja koma aftur. Langflestir svarenda, eða um 60 af hundraði, höfðu ekki séð neina umfjöllun um Ísland áður en haldið var í ferðina en um fjórðungur hafði séð jákvæða umfjöllun.

Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda sagist nota það en í fyrstu könnuninni árið 1997 var þetta hlutfall innan við 20 af hundraði. Bæklingar eða handbækur eru nú næstmest notaði upplýsingamiðillinn en álíka margir nefndu einnig ferðaskrifstofur í eigin landi. Af þeim erlendu gestum sem sóttu upplýsingar á Netið voru Bandaríkjamenn og Bretar duglegastir að nýta þennan nýja upplýsingabrunn.

Nýta afþreyingu í auknum mæli

Sem fyrr eru flestir erlendu gestanna að koma í frí og var meðaldvalarlengd hér á landi um 10 og ½ dagur. Almenn aukning er í nýtingu afþreyingar af ýmsu tagi en sem fyrr njóta náttúruskoðun og sund mestra vinsælda.
"Það er mjög ánægjulegt að sjá að erlendu ferðamennirnir eru að nýta sér í auknum mæli þá afþreyingu sem boðið er upp á um allt land. Það sýnir að sú stefna sem við mörkuðum í þessum efnum var rétt. Þá er einnig fagnaðarefni að sjá að gistingum er að fjölga víðast hvar úti á landsbyggðinni milli kannana, ekki síst á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum," segir Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands.