Stjórnarskrárnefnd hefur nú skilað forsætisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, frumvörp til stjórnskipunarlaga um þrjú meginefni - þjóðareign náttúruauðlinda, umhverfis- og náttúruvernd og að hluti kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef forsætisráðuneytisins .

Í frumvarpi stjórnarskrárnefndar um þjóðareign á náttúruauðlindum hefur verið sett fram ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Þá eru sett skilyrði fyrir veitingu heimilda til nýtingar auðlinda og kveðið á um skyldu ríkisins til þess að taka að jafnaði eðlilegt gjald fyrir. Slíkar heimildir myndu aldrei leiða til varanlegs eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindum í þjóðareign.

Í frumvarpi um umhverfis- og náttúruvernd segir að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum og að verndin skuli grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Einnig segir að stuðlað skuli að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.

Í frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur er lagt til að 15% kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi. Undanskilin eru meðal annars fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni. Sex vikur mega líða frá birtingu laganna þar til krafan er borin fram. Þjóðaratkvæðagreiðsluna á þá að halda í fyrsta lagi 6 vikum og í síðasta lagi 4 mánuðum frá því að staðfest krafa liggur fyrir.

Stjórnarskrárnefnd 2013-2017 skipa þau Páll Þórhallsson, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Einar Hugi Bjarnason, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall og Valgerður Gunnarsdóttir. Smella má á eftirfarandi hlekki til að lesa frumvörpin í heild sinni:

Þjóðareign á náttúruauðlindum
Umhverfis- og náttúruvernd
Þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda