„Fjárhagsleg staða stofnunarinnar er mjög sterk, sjóðurinn er sterkur og við teljum okkur ráða við mjög stóra náttúruhamfaraatburði,“ segir Jón Örvar Bjarnason, sviðstjóri vátryggingasviðs hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, NTÍ.

„Við fylgjumst vel mð þessari stöðu á Reykjanesi, tökum þátt í þessum samráði og samtali við hagsmunaaðila og viðbragðsaðila sem eru í framlínunni. Undirbúum okkur undir nýjan veruleika á Reykjanesi, reynum að stilla saman strengi og vinnum saman af yfirvegun."

Hlutverk NTÍ er að tryggja og bæta tjón á eignum af völdum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjó- og vatnsflóða. NTÍ tryggir allar húseignir á Íslandi og er skyldutrygging sem er greidd samhliða brunatryggingu, og innheimt af vátryggingafélaginu. Stofnunin bætir einnig tjón á innbúi og lausafé, en þó aðeins ef það er brunatryggt hjá almennum tryggingafélögum, og er þá tryggt fyrir sömu fjárhæð. Því til viðbótar tryggir NTÍ töluvert mikið af helstu innviðum samfélagsins, t.d. öll veitukerfi sem eru í eigu opinberra aðila. Umfang starfseminnar er mjög mismunandi frá ári til árs þar sem tjónsatburðir ráða miklu um það hversu mikinn mannafla þarf hverju sinni. Að jafnaði starfa 4-5 starfsmenn í fullu starfi hjá stofnuninni, en þegar stærri tjónsatburðir eiga sér stað er verkefnum ýmist úthýst eða fólk ráðið til tímabundinna starfa.

Greiðslugeta um 100 milljarðar

NTÍ er opinber stofnun sem byggir á grundvelli sérlaga, er með sjálfstæða stjórn og sjálfstæðan fjárhag. „Við ávöxtum okkar eignir með eignastýringu og eigum okkar sjóði, sem við notum til að mæta tjónum. Sjóðurinn stendur núna í kringum 55 milljarða.“ Því til viðbótar kaupir stofnunin endurtryggingar á erlendum mörkuðum sem virkjast þegar verða stórir tjónsatburðum. „Heildargreiðslugeta NTÍ í einum stórum atburði er í kringum 100 milljarðar króna. Það er u.þ.b. það sem við myndum ráða við. Svo höfum við heimild til að taka lán, með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs ef allt um þrýtur. En þá myndu stjórnvöld með einum eða öðrum hætti koma inn.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.