Náttúrminjasafn Íslands greiðir 80 milljónir í leigu á ári fyrir Perluna undir sýningu á vegum safnsins samkvæmt drögum að leigusamningi milli Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem lögð voru fyrir borgarráð í dag. Ráðgert er að leigusamningurinn verði til fimmtán ára, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Leigusamningurinn er með þeim fyrirvara að kaup Reykjavíkurborgar á Perlunni af Orkuveitu Reykjavíkur gangi eftir. Ráðgert er að húsið verði afhent eigi síðar en þann 1.mars 2014.

Samkvæmt þessum drögum leigir Náttúrminjasafnið rúmlega 3000 fermetra í Perlunni og er leigugjaldið því 2.150 krónur á hvern fermetra. Í drögum að leigusamninginum kemur einnig fram að hann verði óuppsegjanlegur og gildir því til 31.desember 2028. Þá á Náttúruminjasafnið að greiða fyrir vatns-, hita- og rafmagnskostnað.