Stefnt er að því að taka frumvarp til laga um náttúrupassa til umræðu á Alþingi á þriðjudaginn að sögn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Frumvarpið var kynnt í þingflokkum í byrjun desember og í framhaldinu lagt fram á Alþingi þar sem sem það hefur beðið 1. umræðu. Í haust hefur frumvarpið verið gagnrýnt af ýmsum og ber þar helst að nefna Samtök ferðaþjónustunnar, sem hafa lagst gegn hugmyndinni um náttúrupassa og frekar viljað leggja á gistinátta- eða komugjald.

„Ef dagskrá þingsins riðlast ekki mun ég mæla fyrir frumvarpinu á þriðjudaginn,“ segir Ragnheiður Elín. „Ég á von á því að það verði miklar umræður um frumvarpið. Í framhaldinu fer það til atvinnuveganefndar sem mun kalla eftir umsögnum og vinna úr þeim. Ég hef sagt að ég er opin fyrir breytingum ef þær verða til bóta. Ég vona að okkur takist að komast að niðurstöðu sem byggir á þessari leið sem ég hef lagt fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .