Bandarísk náttúruverndarsamtök fagna nú væntanlegu brotthvarfi George W. Bush úr Hvíta Húsinu og segja það um leið marka endalok náttúruspjalla og vanhirðu sem einkennt hafi stjórnartíð hans, eftir því sem fram kemur á fréttavef Reuters í morgun.

Um leið heita þau því að leggja sitt lóð á vogaskálarnar með nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, til þess að snúa þessari þróun við.

„Stjórn Bush hefur valdið miklum skaða á náttúruvernd þjóðarinnar síðastliðin átta ár,“ segir Mike Daulton, lögfræðingur náttúruverndarsamtakanna Audubon.

Daulton tiltekur sérstaklega þá aðgerð Bush að afnema bann við olíuborunum úti fyrir ströndum Bandaríkjanna sem hann segir skaða tilraunir til að vernda strendur og efnahag strandsvæða.

Sigur Obama í forsetakosningunum segir Daulton mikinn sigur fyrir náttúruvernd þar sem að hann hafi bæði sigrað frambjóðendur sem vilji miklar boranir og muni koma í stað tveggja olíumanna.

Enn fremur segir Daulton að samtök sín ásamt öðrum muni hvetja Obama og bandaríska þingið til þess að koma fljótlega fram með áætlanir um nýtingu hreinnar orku sem muni lækka kostnað fyrir neytendur, draga úr þörf á olíu og treysti ekki á úthafsboranir.