Náttúruverndasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma þá ákvörðun umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að breyta friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera. Breytingarnar fela í sér að hægt verði að ráðast í gerð nýrrar útfærslu af Norðlingaölduveitu. Mörk friðlandsins verða dregin í kringum hugsanlegt lónsstæði. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í hádegisfréttum í dag.

Í yfirlýsingu sem Náttúruverndasamtök Íslands sendu frá sér í dag segir að með þessari ákvörðun sé „enn á ný opnað fyrir að víðerni svæðisins vestan Þjórsár verði spillt, að hinir stórkostlegu fossar, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss neðar í Þjórsá, verði eyðilagðir,“ segir í yfirlýsingu Náttúruverndasamtakanna.