Nýlega birti Orkustofnun tillögur um virkjanaáform vegna þriðja áfanga rammaáætlunar. Fjöldi virkjanakosta eru nefndir og þar á meðal virkjanir í Hofsá, Hafralónsá, Stóru-Laxá, Vatnsdalsá og Grímsá.

„Þetta er náttúrlega ótrúlegt rugl og sýnir hvað menn geta verið miklir kjánar,“ segir Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF).  „Hvað næst? Eigum við ekki að virkja Æðarfossana í Laxá og Gullfoss. Nei, það er varla hægt að taka þetta alvarlega þetta er svo fjarstæðukennt. Ef menn ætla í alvörunni að fara út í þetta þá verður hér náttúruverndarstríð."

Orri segist hafa fundað með orkumálaráðherra Bretlands í lávarðadeild breska þingsins fyrir skömmu.

„Hann fullvissaði mig um að það yrði engin orka keypt frá Íslandi í gegnum sæstreng nema hún væri fullkomlega sjálfbær og hefði engin neikvæð áhrif á náttúruna."

Orri segist hafa fengið matsmenn til að reikna út fyrir sig hvers virði laxinn væri í íslenskum ám og niðurstaðan hafi verið sú að einn lax væri 1,5 milljóna króna virði.

„Það er því alveg ljóst að ef menn ætla að fara að virkja laxveiðiár þá munu þeir þurfa að borga gríðarlega háar skaðabætur til landeigenda. Þjórsá hefur verið í skotlínu virkjunarsinna og ég bendi á að hún hefur að geyma einhvern stærsta laxastofn Íslands þannig að menn geta byrjað að reikna."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Orra Vigfússon. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .