Heildarmagn haldlagðra fíkniefna hérlendis náði methæðum í fyrra, alls 24 kíló af kókaíni, 32 kíló af amfetamíni, tæplega 8 kíló af hassi, 1,8 lítrar af fljótandi kókaíni, 26 þúsund e-töflur, 1118 hassplöntur og 220 þúsund efedrín töflur, en þó voru haldlagningar og fíkniefnabrot færri í fyrra en árið á undan.

Þetta kemur meðal annars fram í nýútgefinni ársskýrslu þeirrar stofnunar Bandaríkjastjórnar sem fer með alþjóðleg mál á sviði löggæslu og baráttu gegn eiturlyfjum. Byggja þessar tölur á upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum og miðast við árið í fyrra til 27. desember, þ.e. alls ársins nema örfárra daga.

Ef miðað er við götuverð á þessum efnum í lok október síðast liðinn, samkvæmt upplýsingum frá SÁA, er samanlagt verðmæti amfetamínsins, kókaínsins, hassins og e-taflanna um 564 milljónir króna. Ef hins vegar er gert ráð fyrir að amfetamínið og kókaínið sé drýgt þrefalt áður en það fer til neytenda, eins og algengt mun vera,  er um mun hærri tölur að ræða,eða hátt í 1560 milljónir kalls.

Marktæk fjölgun brota

Í skýrslunni, International Narcotics Control Report, kemur fram að eiturlyf séu aðallega flutt til Íslands með pósti, í flutningsgámum og með flug- eða ferjufarþegum.

Helstu ólöglegu efni sem smyglað er til landsins, einkum frá Danmörku, séu kannabisefni og amfetamín og hafi hið síðarnefnda notið stöðugt meiri vinsælda fíkniefnaneytenda undanfarin misseri, svo og notkun kókaíns.

Alls komu upp 97 eiturlyfjasmyglmál í fyrra hérlendis. Marktæk aukning hefur orðið á fíkniefnabrotum á undanförnum árum, þau voru 1816 talsins árið 2005, 2098 talsins árið 2006 og 1842 talsins í fyrra, til 27. desember. Ein skýring aukningar er aukin notkun fíkniefna en önnur að lögreglan hafi hert eftirlit sitt til muna. Þá lagði lögregluembættið á Keflavíkurflugvelli 54 sinnum hald á eiturlyfja en árið 2006 voru haldlagningar hjá embættinu 49 talsins.