Nauðasamningar Bakkavarar Group verða sendir til héraðsdóms Reykjavíkur til staðfestingar á allra næstu dögum. Búast má við að það muni taka dóminn tvær til þrjár vikur að komast að niðurstöðu.

Yfir 90 prósent kröfuhafa Bakkavarar Group samþykktu nauðasamninginn á fimmtudag í vikunni sem leið. Stærstu kröfuhafarnir eru Arion banki, skilanefndir gömlu bankanna og stærstu lífeyrissjóðir landsins.

Kröfurnar eru tilkomnar vegna skuldabréfaútgáfu Bakkavarar Group upp á rúma 60 milljarða króna og gjaldeyrisskiptasamninga sem félagið gerði.

Engar eignir eru inni í félaginu þar sem allar undirliggjandi eignir voru settar sem veð fyrir lánasamningum dótturfélaga. Því töldu margir kröfuhafanna eina möguleikann á endurheimtu vera bundinn við gerð nauðasamninganna.

Samkvæmt þeim fá þeir allar kröfur sínar greiddar með vöxtum á næstu fjórum árum. Gangi það eftir munu bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, sem fá að stýra Bakkavör áfram, geta eignast fjórðung í fyrirtækinu að nýju.