Það hleypti illu blóði í kröfuhafa Existu þegar lögð var fram ný krafa frá skilanefnd Kaupþings upp á 580 milljónir evra í síðustu viku. Miðað við gengi evrunnar í gær jafngildir upphæðin um hundrað milljörðum íslenskra króna.

Til stóð að kröfuhafar myndu funda í tvo daga til að fara yfir nauðasamning sem liggur á samningaborðinu. Þeim þótti ekki ástæða til að ræða málin frekar og fóru í fússi af fundi með mönnum Existu.

Málið er á viðkvæmu stigi og enginn vildi láta hafa neitt eftir sér um málið. Fulltrúar tveggja kröfuhafa, sem Viðskiptablaðið ræddi við, sögðu óvíst hvert framhaldið yrði.

Í reiði sinni hefðu sumir á fundinum sagt réttast að setja félagið í þrot í staðinn fyrir að standa að þessum nauðasamningi. Nauðasamningurinn er því í uppnámi þótt áfram verði reynt að fá hann samþykktan.

Ef tekið verður tillit til kröfu Kaupþings er ljóst að enn minnka endurgreiðslur til annarra kröfuhafa. Þeir hafa gert sér vonir um að fá fimm til tíu prósent upp í kröfur sínar samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .