Kröfuhafar Existu samþykktu í gær með 97,35% atkvæða frumvarp til nauðasamnings félagsins. Þeir fá nú full yfirráð yfir félaginu.

Kröfuhafi Existu seldi nýverið 20 milljón evra kröfu á félagið á 15% af upprunalegu virði hennar. Í íslenskum krónum er virði kröfunnar rúmir þrír milljarðar króna, en við það bætast áfallnir vextir frá því að Exista stofnaði til hennar.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins sem hafa komið að endurskipulagningu Existu segja verðið allt of hátt. Nauðasamningur félagsins gerir ráð fyrir 7% til 52% endurheimtum án vaxta og fastra afborgana á næstu 10 til 20 árum.

Hæstu endurheimtur gera ráð fyrir að allt gangi upp hjá Existu. Þar skiptir mestu máli að risavaxnir gjaldeyrisskiptasamningar félagsins verði gerðir upp miðað við gengi Seðlabanka Evrópu. Það myndi þýða gríðarlegt tap fyrir íslenska lífeyrissjóði sem vilja gera samningana upp á gengi íslenska Seðlabankans í októberbyrjun 2008. Talið er að kaupandi 20 milljón evru kröfunnar veðji á að svo fari.