Erfiðlega gengur fyrir þrotabú Sparisjóðabankans (SPB), áður Icebank, að fá undanþágu frá fjármagnshöftum til útgreiðslu gjaldeyris til kröfuhafa bankans. Morgunblaðið segir í dag að við mat á beiðni SPB um undanþágu leggi Seðlabankinn áherslu að hún verði aðeins veitt þannig að ekki verði til óheppilegt fordæmi við mögulega nauðasamninga Glitnis og Kaupþings.

Blaðið segir ekki hægt að ljúka við fyrirhugaðan nauðasamning SPB fyrr en Seðlabankinn veitir heimild til undanþágu frá höftum.

Morgunblaðið segir erlenda kröfuhafa SPB hafa getað fengið 13,5 milljarða króna í gjaldeyri í erlendri mynt. Nokkrir hafi hins vegar valið að fá greitt út í íslenskum krónum og nemur upphæðin hundruðum milljóna. Blaðið segir líklegt að þeir hafi kosið fremur að fá greitt í krónum en að taka á sig þá áhættu að fá til að mynda borgað með kröfu á hendur þrotabúi.