Nauðasamningar Kaupþings og Glitnis geta verið stórt skref í átt að því að afnema höftin án þess að jafnvægi á gjaldeyrismarkaði verði raskað, að því er segir í erindi kröfuhafaráða Kaupþings og Glitnis til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Þar segir m.a. að í kjölfar staðfestingar nauðasamninga verði skipaðar stjórnir fyrir hvorn gömlu bankanna fyrir sig sem munu hafa að markmiði að selja innlendar eignir fyrir erlendan gjaldeyri eftir því sem frekast er unnt, sem sé í samræmi við stefnu og markmið Seðlabankans. Er hér einkum átt við eignarhlut gömlu bankanna í þeim nýju.

Í bréfinu segir að helsta markmið stjórna Kaupþings og Glitnis í kjölfar nauðasamninganna sé að koma eignum þeirra í verð og úthluta til kröfuhafa. Eftir nauðasamningana verði Kaupþing og Glitnir gjaldfær eignastýringarfélög sem starfi samkvæmt skýrum stefnumiðum og leitist við að afla erlends gjaldeyris með sölu nýju bankanna. Þetta hámarki líkur á að hægt verði að ná fram markmiðum Seðlabankans.

Þar segir jafnframt að segja megi að í kjölfar nauðasamninganna verði krónueign erlendra aðila að nokkru leyti á höndum tveggja aðila sem ætti að einfalda aðgerðir við losun gjaldeyrishafta. Auk nauðsynlegrar sérfræðiþekkingar hafi bæði Kaupþing og Glitnir augljósan hag af því að leita skynsamlegra leiða við að aflétta höftunum.

„Í stuttu máli má segja að enda þótt fyrirliggjandi nauðasamningar Kaupþings og Glitnis leysi einir og sér ekki vandamálið við snjóhengjuna svokölluðu, munu nauðasamningarnir – ef vel tekst til – geta leitt til þess að til verði fyrirtæki sem vinna munu með íslenskum stjórnvöldum og öðrum aðilum við að takast á við vandann og ráðstöfun eigna sem heyra undir gjaldeyrishöftin og stuðli þannig að uppbyggingu hagkerfisins. Stærri kröfuhafar gömlu bankanna hafa augljósa hvata til að aðstoða Ísland við að styrkja hagkerfið og stuðla að efnahagslegu jafnvægi. Hitt er jafn ljóst, að tafir á þessu ferli og/eða takmarkanir á útgreiðslu innlána gömlu bankanna sem eru ekki bundin af gjaldeyrishöftum munu takmarka eða gera að engu þá kosti sem taldir eru hér að framan,“ segir í bréfinu.