Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfu Allrahanda Gl, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi, um staðfestingu á nauðsamningi félagsins.

Landsréttur vísaði til þess að lögin um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar heimila breytingu á greiðsluskilmálum kröfu sem samningsveð er fyrir í eign skuldarans, þar á meðal lengingu lánstíma eða frestun gjalddaga í allt að 18 mánuði. Þar sem nauðsamningur Allrahanda miðar við að gjalddagi samningsveðskrafna framlengist um þrjú ár gangi nauðasamningurinn lengra en lögin heimila. „Af þessari ástæðu verður hafnað staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila,“ segir úrskurði Landsréttar sem Viðskiptablaðið hefur undir höndunum.

Rétt er að benda á að þegar frumvarpið að lögunum var fyrst lagt fram miðaði heimildin við þrjú ár en ekki átján mánuði. Hún var stytt niður í átján mánuði áður en frumvarpið varð að lögum eftir tillögu Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sem taldi að án breytinga yrði gengið á rétt kröfuhafa án þess að þeim væri tryggð full aðkoma.

Færði tekjuberandi eignir í systurfélag

Allrahanda fékk heimild til að fara í greiðsluskjól í lok júní 2020. Sú heimild var framlengd til 25. júní 2021. Degi áður en heimildin rann út krafðist Allrahanda þess fyrir héraðsdómi að nauðasamninurinn yrði samþykktur. Kröfuhafar, alls ellefu talsins, þar á meðal N1, Isavia og Landsbankinn, mótmæltu því að samningurinn yrði staðfestur.

Viðskiptablaðið sagði frá dómi Héraðsdóms uppkveðnum 3. nóvember síðastliðnum en hann taldi að færsla „mikilvægustu tekjugefandi rekstrarþættina“, þar á meðal vörumerkið Gray Line, yfir í systurfélagið Gray Line Iceland ehf. myndi rýra eignir félagsins og þar með möguleika kröfuhafa á að fá greitt upp í kröfur sínar. Fyrir vikið var nauðsamningnum hafnað.

Sjá einnig: Segir ekki hættu á kennitöluflakki

Í áfrýjun Allrahanda til Landsréttar er tekið fram að eigandi vörumerkisins, Gray Line Corporation, hafi nýtt heimild í samningi við Allrahanda um að rifta samningnum eftir að í ljós kom að nauðasamningur yrði ekki umflúinn. Því næst var samið við systurfélagið GL Iceland ehf. um notkun vörumerkisins. Því hafi Allrahanda ekki getað haldið vörumerkinu og því ekki getað selt ferðir áfram undir merkjum Gray Line. Hins vegar hafi stjórn GL Iceland ehf. lýst yfir með skuldbindandi hætti að félagið myndi greiða 98% af hagnaði sínum til Allrahanda. Kröfuhafarnir telja hins vegar að með þessu fyrirkomulagi njóti þeir engra tryggingarréttinda í vörumerkinu Gray Line.

Þá hafi einnig verið brugðist við úrskurði Héraðsdóms með því að auka hlutafé Allrahanda um 42 milljónir króna með útgáfu nýrra hluta þann 4. nóvember sl. sem greidd var með framsali alls hlutafjár systurfélagsins GL Iceland. Jafnframt hafi Gray Line Corporation ekki gert athugasemdir. „Í þessu felist að öll þau réttindi sem um ræði séu áfram að fullu í eigu [Allrahanda] og engin verðmæti úr greipum hans gengin. Hafi fjárhagsstaða sóknaraðila því ekki verið rýrð með nokkrum hætti eða lánardrottnum bakað tjón.“

Sjá einnig: Fara ekki fram á eftirgjöf skulda

Kröfuhafarnir töldu að Allrahanda gæti ekki rasakað úrskurði Héraðsdóms með því að GL Iceland hafi verið gert að dótturfélagi þess. „Auk þess breyti það í engu þeirri staðreynd að sóknaraðili hafi, þrátt fyrir það, rýrt fjárhagsstöðu sína með því að flytja vörumerkið og viðskiptavild samkvæmt því yfir til GL Iceland ehf. lánardrottnum til tjóns.“

Allrahanda GL er í eigu Þóris Garðarssonar og Sigurdórs Sigurðssonar, sem hvor um sig eiga 25,5%. Akurs fjárfestingar slhf. fer með 49% hlut en það félag er í stýringu hjá Íslandssjóðum og meðal annars í eigu Íslandsbanka, ýmissa lífeyrissjóða og VÍS.