Slitastjórn Glitnis hefur tilkynnt kröfuhöfum að ekki muni takast að leggja fram frumvarp að nauðasamningi í desember eins og að var stefnt. Ýmsir óvissuþættir standa í vegi fyrir því að hægt verði að ákveða nýja dagsetningu nauðasamninga.

Vísað er til þess í tilkynningu frá slitastjórninni að nýverið hafi Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagt í fjölmiðlum um nauðsynlegar forsendur sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að Seðlabankinn geti gefið samþykki fyrir nauðasamningi vegna Glitnis. Í kjölfarið hafi slitastjórn Glitnis leitast við að ganga úr skugga um áhrif þessa á þau tímasettu markmið sem tilkynnt hafi verið um nauðasamning. Ljóst er af þeim viðræðum, sem hafa átt sér stað, að ekki verður unnt að ná áður settu markmiði í desember, eins og segir í tilkynningunni.

Slitastjórnin áréttar þó, að allar upplýsingar sem Seðlabankinn hefur óskað eftir hafi verið veittar fúslega og tímanlega og fundi hún reglulega með bankanum um slitameðferðina. Þá segir í tilkynningu frá slitastjórninni að hún kappkosti að eiga gott og upplýsandi samstarf við viðeigandi stjórnvöld á öllum stigum slitameðferðarinnar og mun halda því áfram.