Nauðasamningur Allrahanda GL, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi, var samþykktur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. nóvember síðastliðinn. Kröuhafinn E.T. ehf. hefur kært úrskurðinn til Landsréttar sem tekur nú málið fyrir.

Félögin Snókur eignarhaldsfélag ehf. og E.T. ehf., sem eru í eigu Hrafns Einarssonar og Hafdísar Bjargar Guðlaugsdóttur, voru einu varnaraðilarnir í málinu. Félögunum er gert að greiða Allrahanda GL 600 þúsund krónur í málskostnað.

Aðalkröfu varnaraðila, um að nauðasamningurinn yrði staðfestur eftir þeim forsendum sem lagt var upp með í beiðni skuldarans til héraðsdóms í júní, var ekki dómtæk samkvæmt úrskurði héraðsdóms. Ekki var fallist á varakröfu um nauðasamningnum yrði hafnað.

„Það er auðvitað bagalegt hversu langan tíma þetta ferli hefur tekið en það er réttur kröfuhafa að fara með ágreining fyrir dómstóla en mér sýnist eftir að hafa lesið vel rökstuddan úrskurð héraðsdóms að ágreiningsefni hafi verið tilefnislaust sem hefur tafið greiðslur til kröfuhafa um meira en þrjá mánuði,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda, í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Þórir Garðarson
Þórir Garðarson
© Árni Sæberg (M Mynd/Árni Sæberg)

„Það eru verðmæti í rekstri félagsins en verðmætin byggja á aðgangi að vörumerki og bókunarvél sem er ekki eign heldur afnotaréttur sem fellur niður ef félagið er tekið til gjaldþrotaskipta. Uppgjörsgreiðslur til kröfuhafa er nýtt fjármagn sem kemur inn í félagið. Því er mikilvægt fyrir kröfuhafa að samningurinn sem yfirgnæfandi meirihluti þeirra hefur samþykkt verði staðfestur af dómstólum svo uppgjör geti farið fram.“

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um var frumvarpi að nauðasamningi Allrahanda GL samþykkt af eigendum 89,2% kröfufjárhæða á fundi í lok júlí síðastliðnum. Nauðasamningurinn felur í sér að lánadrottnar sem fara með samningskröfur er boðin greiðsla á 30% krafna sinna. Ekki er gert ráð fyrir greiðslu vaxta af samningskröfum.

Um er að ræða annað nauðasamningsfrumvarp Allrahanda en félagið fékk heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar í júní 2020. Samkvæmt fyrra frumvarpinu átti ekki að fara fram á eftirgjöf skulda heldur lengja í lánum félagsins, engir gjalddagar yrðu í þrjú ár og dráttarvöxtum breytt í samningsvexti.

Fyrri nauðasamningnum var hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember síðastliðnum. Landsréttur staðfesti dóminn í byrjun þessa árs og Hæstiréttur hafnaði að veita félaginu kæruleyfi í byrjun mars.

Um miðjan júní síðastliðinn var Allrahanda GL aftur veitt heimild til að leita nauðsamnings með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.