Nauðasamningur Giftar fjárfestingarfélags, sem stofnað var utan um eignir og skuldbindingar Samvinnutrygginga sumarið 2007, hefur enn ekki verið afgreiddur úr stjórn Arion banka. Bankinn er langsamlega stærsti kröfuhafi félagsins. Skilanefnd Glitnis og Landsbankinn hafa þegar samþykkt samninginn fyrir sitt leyti.

Gift var umsvifamikið á hlutabréfamarkaði á árunum fyrir hrun. Það var stór eigandi hlutabréfa í Existu og Kaupþingi, með rúmlega 5% hlut í Existu og 3,4% í Kaupþingi, þegar bankarnir hrundu. Exista var síðan stærsti eigandi Kaupþings með um fjórðungs hlut. Þá átti félagið einnig hlutabréf í Straumi, Landsbankanum og Glitni.

Rannsókn PwC

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku hefur slitastjórn látið tvo sérfræðinga PwC rannsaka lánveitingar Kaupþings til Giftar, einkum í desember 2007 og síðan fram eftir ári 2008. Rannsóknin hefur m.a. leitt í ljós að Kaupþing gekk í ábyrgð fyrir Gift oftar en einu sinni og hélt félaginu á floti, þrátt fyrir að það væri með gjaldfallin lán.

Virðist hræðsla við að bréfin í Kaupþingi og Existu færu út á markað á viðkvæmum tíma hafa ráðið þar för. Tölvupóstsamskipti á milli forsvarsmanna Giftar, á þeim tíma Benedikts Sigurðssonar og Sigurjóns Rúnars Rafnssonar, aðstoðarkaupfélagsstjóra í Skagafirði, og síðan starfsmanna Kaupþings, hafa m.a. verið skoðaðir til þess að fá skýringar á því hvers vegna Kaupþing gekk í ábyrgð fyrir félagið. M.a. með því að leggja til annars vegar 750 milljóna króna eignir og hins vegar 1,1 milljarð þegar Glitnir og Landsbankinn gjaldfelldu lán á félagið í september 2008. Fyrir hönd Kaupþings áttu Bjarki Diego hrl., Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason og Jakob Bjarnason m.a. í samskiptum við Gift vegna þessara hluta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.