Nauðasamningur slitabús Kaupþings fer í uppnám á næstu dögum ef áfrýjunardómstóll í Bretlandi veitir Vincent Tchenguiz heimild til þess að áfrýja skaðabótakröfu sinni á hendur slitabúinu. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að Tchenguiz hafi frest fram á helgi til að sækja um áfrýjunarleyfið, en kröfu hans var vísað frá í undirrétti þann 30. júní síðastliðinn. Verði krafan tekin til efnislegrar meðferðar fyrir breskum dómstólum þyrfti slitastjórn Kaupþings að gera ráð fyrir mögulegri greiðslu skaðabótanna við gerð nauðasamnings þar til endanlegur dómur fellur í málinu. Náist ekki að ganga frá nauðasamningi fyrir áramót mun stöðugleikaskattur falla á búið.

Krafa Tchenguiz beinist gegn Kaupþingi, Grant Thornton í Bretlandi, Stephen John Akers og Hossein Hamedani, sem eru eigendur hjá Grant Thornton, og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni slitastjórnar Kaupþings. Telur hann þessa aðila bera ábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar á lánveitingum Kaupþings til félaga í eigu hans og bróður hans, Robert Tchenguiz. Nemur skaðabótakrafan 2,2 milljörðum punda.