Konan sem segir Uber-bílstjóra hafa nauðgað sér þegar hún keypti hjá honum far í Delhi á Indlandi á síðasta ári hefur ákveðið að stefna fyrirtækinu til greiðslu skaðabóta. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Konan hefur ráðið nafntogaðan lögmann til hagsmunagæslu í málinu en sá heitir Douglas Wigdor og hefur starfsstöðvar í New York í Bandaríkjunum. Hann er helst þekktur fyrir að hafa gætt hagsmuna þernunnar sem kvað Dominique Strauss-Kahn hafa nauðgað sér á hótelherbergi á Manhattan árið 2011.

Bílstjórinn sem konan segir hafa naugðað sér heitir Shiv Kumar Yadav og hófust réttarhöld yfir honum í gær. Hann kveðst saklaus af ásökununum en situr í gæsluvarðhaldi á meðan málsmeðferðin stendur yfir.

Konan segir Uber ekki hafa gert nóg til þess að kanna bakgrunn þeirra bílstjóra sem starfa í gegnum app fyrirtækisins. „Ef Uber hefði staðið sig betur hefði þetta atvik aldrei átt sér stað,“ skrifaði hún í grein sem birtist í dagblaði á Indlandi fyrr í mánuðinum.

Talsmaður Uber neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.