Í skýrslu Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins sem kynnt var á fundi í morgun er komið fram með ýmsar leiðir til að bæta úr þeim vandamálum sem fylgja skattsvikum í ferðaþjónustu.

Fram kemur í skýrslunni að nauðsynlegt sé að einfalda virðisaukaskattskerfið. Undanþáguákvæði eru mikil vandamál. Í því felst að sum starfsemi er virðisaukaskattskyld en önnur ekki. Því eru sumir einkaaðilar undanþegnir virðisaukaskatti og er talið að það þekkist hvergi annars staðar en á Íslandi. Einnig þarf að minnka bil á milli virðisaukaskattsþrepa en virðisaukaskattur í ferðaþjónustu er ýmist 7% eða 25,5%. Það hefur búið til hvata til að reyna að færa söluvöru í lægra þrepið.

Einnig þarf að einfalda leyfakerfið og reyna að samtvinna eftirlit með leyfum og sköttum. Ein leið til úrbóta er að koma á fót ríkisrekinni leyfastofnun sem aðstoðar aðila í ferðaþjónustu og hjálpar aðilum að fara eftir settum reglum. Einnig þarf að koma á einhvers konar kerfi sem gefur viðskiptavinum færi á að fylgjast með að reglum sé fylgt.

Fram kemur í skýrslunni að sífellt meiri krafa sé gerð af launþegum að fá borgað svart. Nauðsynlegt er talið að bæta úr þessu, til dæmis með því að hækka frítekjumark lánþega hjá LÍN og þannig auðvelda námsmönnum að taka að sér tímabundna vinnu á annatímum. Kerfið í dag er ekki talið hvetjandi fyrir námsmenn að taka að sér aukavinnu því hún hækkar ekki ráðstöfunartekjur þeirra í miklum mæli nema þeir fái borgað svart.

Á fundinum kom fram að þörf væri á upplýstari umræðu um skattsvik í ferðaþjónustu. Íslendingar séu ekki mjög næmir fyrir skattsvikum og því þurfi að breyta. Þó sé mikill vilji til að gera betur.