Gylfi Zoëga, nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir nauðsynlegt að virkir vextir bankans hækki nægilega mikið til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju. Jafnframt þurfi að taka aftur aðgerðir sem juku við laust fé í bankakerfinu ásamt því að auka aðhald í ríkisrekstri. „Ekki er þó líklegt að sú verði raunin,“ skrifar Gylfi í aðsendri grein í Vísbendingu .

Hann segir að hætta sé á vaxandi verðbólgu en neikvæðir raunvextir styðji enn við eftirspurn. „Þótt ríkisfjármálastefnan sé að verða aðhaldssamari þá er sú breyting ekki kröftug.“ Gylfi segir að sambland mikillar verðbólgu, neikvæðra raunvaxta, vaxandi eftirspurnar og spennu á vinnumarkaði geta hæglega framkallað miklar launahækkanir og vaxandi verðbólgu á víxl.

„Við þessar aðstæður er mikilvægt að peningastefna og ríkisfjármál séu samstillt jafnframt því sem aðilar vinnumarkaðs sýni ábyrgð með því að taka þjóðhagslegar afleiðingar kjarasamninga til greina við gerð þeirra.“

Hann segir að á næstu mánuðum verði nauðsynlegt að virkir vextir Seðlabankans hækki nægilega mikið til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju. Hversu mikið fari eftir þróun verðbólgu, sem mældist síðast 7,2% í apríl.

Gylfi bendir á að væntingar eru um aukinn fjölda ferðamanna á næstunni, einkaneysla og fjárfesting hafi farið vaxandi og atvinnuleysi fer hratt minnkandi. Atvinnuleysi mælist nú 4,1% og er nálægt jafnvægi sínu að mati Seðlabankans en fari líklega undir jafnvægi á næstunni jafnframt því sem framleiðsluspenna myndist. Til viðbótar hafi verðbólga vaxið hratt, m.a. vegna hnökra í alþjóðlegum aðfangakeðjum og mikilli eftirspurn eftir vörum og þjónustum innanlands sem „stafar að miklu leyti af áhrifum hagstjórnar sem hefur haft að markmiði að örva eftirspurn“.

„Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að hagstjórn bregðist við með aðhaldi. Á skömmum tíma verður peningastefna og ríkisfjármál að skipta um gír.“

„Nú er tími til að sættast!“

Peningastefnunefnd hækkaði stýrivexti um 100 punkta í síðustu viku og hafa þeir nú hækkað úr 0,75% í 3,75% á innan við ári. Gylfi varar við því að ef samið verður um miklar launahækkanir við næstu kjarasamninga muni það kalla á enn meiri vaxtahækkanir.

Hann brýnir fyrir aðilum vinnumarkaðarins að komast að samkomulagi um hóflega kjarasamninga sem samræmist lægri verðbólgu. Ófriður endi yfirleitt með launahækkunum umfram framleiðni sem veltur síðan út í verðlag. Auðvelt sé að benda launþegahreyfingunni á að stilla kaupkröfum í hóf en einnig verði gera væntingar til eigenda fjármagns að stilla eigin væntingum í hóf. „Nú er tími til að sættast!“

Gylfi furðar sig á að nokkrir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar úthrópi vaxtahækkanir á sama tíma og raunvextir séu neikvæðir og raunvirði óverðtryggðra lána að lækka um rúmlega 7% á ári. Ekki sé heldur að heyra sáttatón á fjármagnshlið vinnumarkaðarins að sögn Gylfa.

„Eigendur margra stórra skráðra fyrirtækja greiða sér milljarða í arð. Mörg þessara fyrirtækja starfa við skilyrði fákeppni í krónuhagkerfinu þar sem hagnaður stafar ekki að fullu af því að stjórnendur hafi tekið áhættu í ákvörðunum eða komið með nýjungar í rekstri, svo vægt sé til orða tekið. Fréttir berast einnig af háum launagreiðslum stjórnenda margra af þessum fyrirtækjum. Þótt þessar launagreiðslur skipti litlu máli í þjóðhagslegu samhengi þá gefa þær tóninn fyrir hinn almenna vinnumarkað. Viðskiptabankar fækka útibúum og draga úr kostnaði sínum og greiða síðan út milljarða arð.“

Gylfi varar við háum launakröfum til að bæta launafólki upp verðbólgu en slíkar hækkanir séu líklegar til að fara út í verðlag sem kalli á enn aðrar launahækkanir. Víxlverkun launa og verðlags af þessum geti varað í áraraðir.

„Þegar svo seðlabankar reyna ná tökum á verðbólgunni þá krefst slíkt atvinnuleysis með tilheyrandi hörmungum fyrir þá sem fyrir því verða,“ segir Gylfi.

Vaxtahækkanir byrjað of seint

Verðbólga fer vaxandi víða um heim og er til að mynda komin í 8,3% í Bandaríkjunum og 7% í Bretlandi. Seðlabankavextir eru þó enn á bilinu 0,75%-1% í þessum löndum. Einnig má benda á að stýrivextir eru undir 1% í Svíþjóð og Noregi og neikvæðir í Danmörku.

Gylfi segir að þótt viðbrögð við verðbólgu séu þekkt þá geti hún orðið langvinn ef viðbrögð eru ekki rétt. Reynslan frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar sanni það.

„Allar líkur eru á því að vaxtahækkanir hafi byrjað of seint og verið of litlar í þessum löndum sem síðan kallar á hærri vexti og meiri samdrátt á næstu árum. Mistökin frá áttunda áratugnum hafa þá verið endurtekin.“